Af væntanlegum tannsmiðum og unganum smáa: Ég las þetta á myndlist.is....

fimmtudagur, september 07, 2006

Ég las þetta á myndlist.is....

Árið 2000 var haldin samsýning nokkurra listamanna í Kolding í Danmörku. Einn þátttakandinn, Marco Evaristti frá Chile, vakti óskipta athygli Dana fyrir framlag sitt til sýningarinnar. Í fáum orðum fólst það í því að stilla upp 10 venjulegum matvinnsluvélum fullum af vatni, en í hverri vél var lifandi gullfiskur. Svo var gestum sýningarinnar gefinn kostur á að kveikja á vélunum og búa til „gullfiskasúpu". Skemmst er frá því að segja að dýraverndunarsamtök og almenningur um alla Danmörku mótmæltu kröftuglega og lögreglan hótaði málsókn. Þá voru meðsýnendur Chilemannsins afar óánægðir. Það hreif þó ekki og við opnun sýningarinnar og dagana á eftir mun hafa verið kveikt á öllum matvinnsluvélunum tíu. Þannig urðu til 10 „gullfiskasúpur". Þetta var reyndar ekki í fyrsta sinn sem þessi ágæti maður hafði gengið fram af hinum venjulega Dana. Á sama sýningarstað hafði hann nokkru áður stillt upp tveimur dauðum svínum í glerkassa og gátu sýningargestir fylgst með því hvað gerðist þegar svínin rotnuðu og notið lyktarinnar um leið. Um þessa snilld má lesa nánar í Listapósti sem út kom 23. febrúar 2000.











Þetta rifjaðist upp fyrir skrifara nú í lok ágúst þegar hann fór á opnun sýningar okkar ágætu Steinunnar Þórarinsdóttur í Gallerie Egelund við Breiðgötu í Kaupmannahöfn. Þegar hann gekk eftir Breiðgötunni sá hann í sýningarglugga annars gallerís eina af þessum matvinnsluvélum. Í vélinni var gruggugt vatn og leifar af gullfiski. Við vélina var miði þar sem stóð að þetta listaverk ætti að fara á uppboð og matsverð væri 65-70 þúsund danskar krónur. Lágmarksverð er ekki undir 50 þúsund dönskum krónum. Seljist verkið á 50 þúsund er endanlegt verð tæplega 800 þúsund íslenskar krónur með gjöldum sem á leggjast. Þetta hljóta að vera mikil kjarakaup. Því miður hefur skrifari ekki upplýsingar um hvort svínin verða líka á uppboðinu.