Af væntanlegum tannsmiðum og unganum smáa: Bekk tú skúl

sunnudagur, janúar 13, 2008

Bekk tú skúl

Skólinn er byrjaður og allir í fíling. Það er búið að vera galið að gera hjá mér því það er uppgjör í vinnunni. Reyndar er ég hætt í þessari vinnu en ætla eitthvað að aðstoða þegar þess þarf. Ég hef verið að mæta kl 8 í skólann og farið svo beint í vinnuna og verið það til kl 8 á kvöldin. Enda er mikið búið að geispa síðustu nokkra sólarhringa og þannig verður það næstu vikuna.
Skólinn er fínn og ég er ekki elst.
Kennararnir eru fínir. Einn er vel bústinn og talar eins og veðurfræðingur. Sá hefur mikinn áhuga á hverskonar sýklum en er alveg laus við að vera svalur. Sennilega er það ástæðan fyrir því að hann er svona skondinn. Kominn í nörda hring. Svo er það ólétta líffræðikennslukonan sem talar í belg og biðu og skrifar litla skrifstafi á töfluna sem er erfitt að skilja. Mér finnst hún ekki skemmtileg en það er samt gaman að fylgjast með henni. Hún er rosalega ófríð og ég hef spáð aðeins í því hvaða ólánsami maður vildi gera hana ólétta. Henni er alltaf heitt og hefur alla glugga galopna eins lengi og boðlegt þykir og jafnvel aðeins lengur. Nóg af fersku lofti þar á ferð.
Skólafélagar mínir eru af öllum gerðum. Fyrstu vikunni eyddi ég í að skanna líðinn úr fjaska. Þarna eru bólugrafnir unglingar, ábyrgðarfullar mæður og einhverjar ömmur á stangli. Svo eru nýbúagengi og hópur af fjörkálfum sem skondra um í mesta sakleysi.
Eftir eina viku í skólanum sé ég strax afföll í tímum. Minnir óneytanlega á sjálfa mig þegar ég var 16-18 ára. Ræðum það seinna. Ég tók sérstaklega eftir því að hann Jens sem sat/svaf við hliðina á mér í fyrsta íslensku tímanum hefur ekki látið sjá sig meir. Reyndar var ég búin að spá því að þannig færi. Sá er afar mjór og er varla kominn á bílprófsaldur.
Þetta er í stuttu máli mikið fjör og ég stefni á persónulegt dúx, ef það er til...