Af væntanlegum tannsmiðum og unganum smáa: Þetta er nú meira ruglið

miðvikudagur, september 10, 2008

Þetta er nú meira ruglið

Nú er ég rasandi hissa. Í skólanum í dag vorum við að beygja vír, reyndar á sérstakan hátt og það var ekkert auðvelt. Til þess eigum við að fá 18 kennslustundir. Ég kláraði þetta eftir 3 kennslustundir en þá hafði flestum ekki tekist að beygja 1 vír í sporuskjulaga hring. Vírinn var allur orðinn krumpaður og skakkur hjá þeim greyjunum.

Ég held að danir séu ekki eins vel gefnir og við íslendingar. Ég sé það betur og betur á hverjum degi. Ég meina, sjáiði bara tungumálið. Þeir skilja ekki einu sinni hvern annan fyrr en eftir 5 bjóra. Ég er rosa góð í dönsku eftir 5 bjóra.

Ég var að yfirheyra skólafélaga mína um það hvað þau lærðu í grunnskóla. Þau fá 1 ár í sundkennslu og það er í 4. eða 5. bekk. Ég varð steinhissa á að heyra þetta. Eftir að hafa kannski gert soldið lítið úr sundkennslumagninu tilkynnti viðmælandi minn mér það að þau læsu bara meira í dönskum skólum. Ekki hefur mér sýnst það. Þau eru t.d. gapandi hissa á að ég kunni fingrasetningu og ég er látin pikka inn öll hópverkefni sem við gerum.

Krummi segir að í skólanum sé bara leikið sér og næstum ekkert lært. Nú erum við að fara af stað með lestrar og skriftar átak hér heima. Hann á ekki að verða jafn slakur og hinn meðal dani.

Það er til forrit sem talar dönsku. Maður skrifar bara eitthvað inn og ýtir á play. Einn kennarinn segir að 1.5 milljón dana skilji ekki það sem þeir lesa og þess vegna var þetta forrit búið til. Þeir eru víst ekki að skilja launaseðlana sína og svona. Það skilja ekkert allir íslendingar launaseðlana sína en þeir skilja samt orðin sem þeir lesa. Alveg finnst mér þetta ótrúlegt.

Áfram Ísland..