Af væntanlegum tannsmiðum og unganum smáa: Vínarbrauðslengjur og danskar lengjur

fimmtudagur, september 04, 2008

Vínarbrauðslengjur og danskar lengjur

Hér flýtur allt í sykri. Danir virðast háma í sig heil ósköp af sætindum. Netto, matvörubúðin hér fyrir utan, er nánast full af gúmmelaði. Sælgætið vellur um hillurnar. Bakarí eru á hverju götuhorni. Unaðs ilminum sem leggur þaðan þarf bara að venjast. Trikkið er bara að byrja ekki að detta inní bakaríin, þá verður allt í lagi. Danskir tannlæknar hljóta að hafa það hellvíti gott. Tjah og kannski líka danskir tannsmiðir. Þá er kannski einhver vonarglæta að við komumst á samning hér.

Það er fleira sem ég hef tekið eftir við þá (hér eftir eru danir kallaðir "þeir"). Kvinnurnar hér eru risa stórar. Ég fæ næstum minnimáttarkennd stundum. Maður byrjar á að sjá skó og svo horfir maður upp og upp og upp og loksins sér maður hausinn, lengst fyrir ofan. Ég laumaðist til að mæla mig við eina mömmuna í Krumma skóla og ég náði henni uppí axlir. Ég hef reyndar aldrei þótt hávaxin en ég er samt enginn dvelli.
Ég vildi samt ekki vera svona í laginu, svona löng öll. Hugsa sér hvað það hlýtur að vera erfitt að finna skó á sig. Síðustu skór sem ég verslaði voru á útsölu í barnadeild og kostuðu heilar 49dkr. Og kjólarnir, hvað þarf mikið efni til að klára einn lengju-kjól? Og hvernig ná þær sér í kærasta sem er nógu hávaxinn?
Satt að segja þarf ég oft að kíkja 2x þegar ég sé svona lengju til að fullvissa mig um að þarna sé ekki klæðskiptingur (transformers) á ferð.