Af væntanlegum tannsmiðum og unganum smáa: Hvítur dagur í Køben

föstudagur, febrúar 20, 2009

Hvítur dagur í Køben

Það er eitthvað útlandalegt við svona lestarmyndir. Tja, ætli það sé vegna þess að svona lagað finnst ekki á Íslandi..
Hrátt en skemmtilegt.
Lestateinar þvers og bílaumferð kruss. Krids og tværs þýðir krossgáta. Athyglisvert, ekki satt?
Netto menn að störfum. Það þurfa allir Íslendingar að koma inní Netto búð. Þar úir og grúir saman allskonar dóti og drasli. Skipulagið er mjög lítið en maður lærir á það á endanum.
Mér finnst dönsk götuljós eitthvað svo undarleg. Það er alveg eins og þau séu að verða ónýt. Þau lýsa heldur ekki mikið, enda rándýrt að reka eina ljósaperu hérna.
Danir eiga það til að klæða sig einstaklega illa í snjó og kulda. Þegar það fór að kólna í haust, var gert grín að úlpunni minni og ég var spurð í hverju ég ætlaði að vera í vetur. Ég piffaði laumulega á liðið útum vinstra munnvikið og hló kvikindislega inní mér þegar blessaðir unglingarnir urðu veikir, einn af öðrum.
Á fleygiferð útum lestarglugga. Brynjar er mikið fyrir að taka myndir útum glugga.
Mér finnst alltaf merkilegt að sjá svona "Spánar snúrur" sem dragast á milli glugga. Þegar svona er ástatt fyrir fólki, er mikilvægt að nágrannarnir séu vingjarnlegir - jafnvel vinalegir. Maður getur rétt ýmindað sér hvað illgjarnir grannar geta gert við þvottinn manns. Mikið ofboðslega hlýtur samt að vera þreytandi að hafa svona fyrir gluggunum hjá sér alla daga. Verst væri þó að eiga sveitta og lúna granna sem hefðu upplituð nærhöld sín á snúrunni í marga daga. Sérstaklega ef ódýrðin blasir við stofuglugganum. Hugsið ykkur ef það væru gestir sem þyrftu að gista í stofunni. Svo þeyta þeir gluggatjöldunum frá um morguninn og í staðinn fyrir að fá sólskinið beint í augun, þagnar fuglasöngurinn og bremsufar nágrannans lemur augasteinana svo liggur við yfirliði.
Þarna var allt iðandi af lífi. Myndavélin er alls ekki að ná stemminguni þarna. Mikið finnst lesendum á Íslandi örugglega óspennandi að skoða myndir af börnum í snjó en sennilega voru þarna saman komin öll börn í hverfinu. Þar sem þetta er víðsfjarri okkar heimakynnum, vorum við Hrafn ekki viðstödd. Bara ég. Ég var hissa hvað snjóþotueign danskra barna er öflug því það eru nú ekki margar brekkur hérna. Allavega datt mér ekki í hug að taka okkar þotu með. Mér finnst líka alltaf soldið fyndið að sjá dani með skíði á öxlinni á lestarstöðinni. Sennilega á leið til Noregs eða Svíþjóðar með farangurinn.
Þetta átti að vera heimildarmynd um það hvað ég var svöng í danskan bakaríssnúð með miklu gúmmelaði. Í bakgrunni átti að sjást allt úrvalið í bakaríinu en það hefur eitthvað misfarist. Þarna sést rétt glitta í fjögur fátækleg aumingjabrauð. Eftir myndatökuna, vatt ég mér inní hlýjuna og var reiðubúin að panta sykurleðju á dönsku. Röðin var skelfileg. Um 10 manns voru þarna inni í einni kássu. Ég dúndraði mér út í snatri með það í huga að væri vel hægt að ná sér í sykur annarsstaðar.
Nánast komin að leiðarenda, ísköld, þreytt í fótum og með snjó í hári. Enda búin að ganga 5 km. Þarna er ég semsagt komin að verslunarmiðstöð þar sem seld eru vínarbrauð og fleira. Auk þess er metró stöð í kjallaranum og þegar þarna var komið við sögu, átti ég bara eftir að taka metró í vinnuna og svo heim eftir borð- og klósett þrifin.